Enski boltinn

Redknapp: Nú er kominn tími á að nýta tæknina

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Redknapp var ekki sáttur eftir leik í dag.
Redknapp var ekki sáttur eftir leik í dag.
Harry Redknapp, stjóri Spurs, hefur kallað eftir því að tæknin verði meira notuð í knattspyrnunni. Chelsea skoraði tvö ólögleg mörk gegn hans liði í dag.

"Í fyrra markinu þeirra fór boltinn aldrei inn. Mér fannst síðara markið vera rangstaða. Fyrra markið þeirra breytti leiknum. Aðstoðardómarinn gerði mistök. Heiðarleg mistök. Hann taldi sig hafa séð boltann inni en hafði ekki rétt fyrir sér," sagði Redknapp svekktur.

"Það var fáranlega erfitt fyrir hann að sjá hvort boltinn var inni eða ekki þar sem hann stóð. Nú er kominn tími á að nota tæknina. Það tekur aðeins nokkrar sekúndur að skera úr um hvort menn skora eða ekki. Þá fá menn heiðarlegar ákvarðanir og leikurinn heldur áfram.

"Ég skil ekki af hverju menn eru enn að rífast um þetta eftir öll þessi ár. Það er alveg ótrúlegt," sagði Redknapp og bætti við að hann væri ekki sár út í markvörðinn sinn, Gomes, sem gerði enn og aftur mistök í fyrra markinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×