Enski boltinn

Pepe Reina: Ég er ekki að fara til Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pepe Reina.
Pepe Reina. Mynd/Nordic Photos/Getty
Pepe Reina, markvörður Liverpool, segir að það sé öruggt að hann sé ekki á leiðinni yfir til erkifjendanna í Manchester United í sumar en Sir Alex Ferguson leitar nú að eftirmanni Hollendingsins Edwin van der Sar sem leggur skóna á hilluna í vor.

„Ég er ekki að fara til Manchester United og það er ekki minn ásetningur," sagði Pepe Reina í viðtali á spænsku útvarpsstöðinni Cadena Cope.

„Ég veit ekki hvort að ég komi til greina hjá þeim en ég er viss um að þeir hafi skoðað marga markverði ekki bara De Gea eða Reina. Þeir eru örugglega með lista yfir fimm eða sex markmenn og ég veit ekki hvort ég sé á þeim lista," sagði Pepe Reina.

Reina segist vera ánægður hjá Liverpool og að hann sé bjartsýnn á það að nýju eigendunum takist að kaupa sterka leikmenn til félagsins í sumar.

„Þeir vilja kaupa sterka leikmenn og þeir vilja að liðið haldi áfram að bæta sig. Ég vona að við getum farið að vinna titla á nýjan leik sem er það sem félag eins og Liverpool þarf á að halda," sagði Reina.

„Benitez kom með mig hingað en það þýðir ekki að mér líði ekki vel undir stjórn Dalglish. Þvert á móti ég held að Dalglish sé rétti stjórinn fyrir Liverpool á þessum tíma," sagði Reina. „Liðið er að spila betur og betur og við verðum að sjá til hvort að það dugi til þess að koma okkur í Evrópukeppnina á næsta tímabili," sagði Reina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×