Fótbolti

Lampard óttaðist að missa byrjunarliðssætið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Frank Lampard fagnar marki sínu um helgina.
Frank Lampard fagnar marki sínu um helgina. Nordic Photos / Getty Images
Frank Lampard hefur viðurkennt að hann óttaðist að Fabio Capello myndi ekki velja hann í byrjunarlið enska landsliðsins fyrir leikinn gegn Wales um helgina.

Fyrifram var talið að Capello myndi velja þá Jack Wilshere og Scott Parker til að spila á miðjunni á kostnað Lampard en allir þrír spiluðu saman um helgina.

Lampard skoraði svo fyrra markið úr vítaspyrnu í 2-0 sigri Englendinga.

Hann segir að það sé mikið af góðum leikmönnum í enska landsliðinu og að samkeppni um stöður sé mikil.

„Ég var meðvitaður um hvaða umræða var í gangi,“ sagði Lampard við enska fjölmiðla eftir leikinn. „Þetta er mjög góður leikmannahópur og það hefur enginn efni á að slaka á í eina mínútu.“

„Ég er búinn að vera lengi í boltanum og missti því ekki svefn vegna þessa. En ég vildi auðvitað spila og leggja mitt af mörkum. Því reyndi ég að gera mitt besta á æfingum.“

Lampard missti af stórum hluta tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni vegna meiðsla en segir að hann sé nú allur að koma til.

„Ég hef í raun aldrei þurft að taka mér svona langt frí áður. Ég held að ég sé aftur að komast í mitt besta form eftir erfitt tímabil. Það er góð tilfinning eftir að hafa verið frá í svo langan tíma.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×