Fótbolti

Formaður fransk smáliðs dæmdur í bann fyrir að bjóða í Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi.
Lionel Messi. Mynd/AFP
Cédric Enjolras, forseti franska smáliðsins FC Borne, lenti í vandræðum hjá franska knattspyrnusambandinu fyrir að senda inn tilboð í besta knattspyrnumann heims, Argentínumanninn Lionel Messi hjá Barcelona.

Enjolras segir að tilboði hafi verið sent í gríni en forráðamenn litu þetta formlega tilboð þó mjög alvarlegum augum og dæmdu forsetann í sex mánaða bann þar af eru þrír þeirra skilorðsbundnir. Franska sambandið neitaði jafnframt að senda tilboðið áfram til spænska sambandsins.

FC Borne spilar í 2. deild í Haute-Loire deildinni en í bænum búa aðeins 400 manns. Forsetinn var í grallaraskapi á fyllerí og datt í huga að reyna að kaupa besta knattspyrnumanns heims 2009 og 2010.

„Við getum ekki sætt okkur við svona hegðun. Þetta var kannski eitthvert grín hjá honum en við skoðum bara staðreyndirnar í þessu máli," sagði

Yves Begon, yfirmaður skráningardeildar franska sambandsins.

Enjolras skilur lítið í refsingu franska sambandsins. „Þegar lítið lið ætlar að bjóða í leikmann þá fer það í gegnum skráningarferli á internetinu. Ég ákvað að skrá inn tilboð og setti bara niður nafn Lionel Messi, fæðingardag hans og félag og sendi það inn í kerfið. Franska sambandið hneykslaðist á þessu tilboði mínu og neitaði að senda það áfram. Ég hef verið settur í sex mánaða bann, þar af þrjá á skilorði en þetta var bara gert í gríni til að skemmta nokkrum vinum mínum," sagði Enjolras og bætti við:

„Ætli ég eyði ekki bara þessum þremur mánuðum á kránni," sagði Enjolras.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×