Enski boltinn

Ferguson: Við höfum saknað Valencia

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Antonio Valencia þegar hann var borinn af velli í september.
Antonio Valencia þegar hann var borinn af velli í september. Nordic Photos / Getty Images
Alex Ferguson, stjóri Manchester United, segir að liðið hafi saknað Antonio Valencia sem hefur ekkert spilað með liðinu síðan í september.

Valencia ökklabrotnaði í leik gegn Rangers í Meistaradeildinni og var í fyrstu óttast að hann myndi ekkert spila meira á leiktíðinni. En endurhæfingin hefur gengið vel og er talið að hann verði orðinn leikfær innan tíðar.

Ferguson staðfesti þó í morgun að hann yrði ekki með í bikarleiknum gegn Arsenal á morgun.

„Hann var frábær á síðasta tímabili," sagði Ferguson í samtali við enska fjölmiðla. „Þetta voru mjög góð kaup."

„Það góða við hann er að hann getur borið boltann upp völlinn af miklum krafti og jafnvægi. Hann er mjög fljótur og við höfum saknað þess."

„Jafnvel þó svo að Nani hafi verið frábær á tímabilinu þá hefur okkur vantað það sem Valencia getur gert."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×