Íslenski boltinn

Gunnar Heiðar: Of gott tækifæri til að sleppa því

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Gunnar Heiðar verður ekki í Eyjabúningnum í sumar.
Gunnar Heiðar verður ekki í Eyjabúningnum í sumar.
„Þetta var alls ekkert auðveld ákvörðun en ég spurði mig að því hvenær ég fengi aftur svona gott tækifæri. Á endanum ákvað ég því að taka slaginn," sagði Gunnar Heiðar Þorvaldsson við Vísi en hann skrifaði undir þriggja ára samning við sænska úrvalsdeildarfélagið Norrköping um tíuleytið í morgun.

Það verður þar af leiðandi ekkert af því að hann spili með ÍBV í sumar en hann nýtti ákvæði í samningi við félagið sem heimilar honum að semja við erlent félagslið.

„Ég velti þessu mikið fyrir mér enda er ég að byggja hús í Eyjum og konan mín ólétt. Eftir nokkra umhugsun ákvað ég samt að kýla á það," sagði Gunnar Heiðar en hann hittir fyrir hjá félaginu sinn gamla þjálfara frá Halmstad.

„Það er ansi stór hluti af ákvörðuninni. Ég hef lítið spilað með síðustu liðum úti en ég veit hvar ég hef þennan þjálfara og hann vill nota mig. Þess vegna var tækifærið einstaklega gott."

Norrköping vann sér sæti í úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og ætlar að festa sig í sessi í ár.

„Það er mikill uppgangur hjá félaginu. Búið að stækka völlinn og kaupa 7-8 nýja leikmenn. Félagið ætlar því að gera gott betur en að festa sig í sessi."

ÍBV ætlar að finna leikmann í stað Gunnars og skoðar nú tvo framherja. Annar er frá Danmörku en hinn frá Austurríki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×