Íslenski boltinn

Hannes: Spila með FH ef ég verð heima

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hannes Þ. Sigurðsson.
Hannes Þ. Sigurðsson. Mynd/Heimasíða Sundsvall
Hannes Þ. Sigurðsson segir að hann muni taka ákvörðun á allra næstu dögum hvort hann verði heima á Íslandi nú í sumar.

Hannes hefur verið án félags síðan að samningur hans við sænska félagið GIF Sundsvall rann út í haust. Áður hefur komið fram að hann hafði úr nokkrum tilboðum að velja í vetur en ekkert hefur enn orðið að því að hann hafi samið við félag.

Hann segir í viðtali við Vísi að meiðsli hafi sett strik í reikninginn. „Ég hef verið meiddur síðan í desember og finn að ég á enn nokkuð í land. Ég er þó byrjaður að æfa á ný og hef verið að koma mér aftur af stað - þetta er þó allt á réttri leið."

Hannes hefur verið að æfa með FH í Hafnarfirðinum en þar er hann uppalinn. „Mér líst alls ekki illa á að vera heima í sumar. Við sjáum hvernig mín mál munu þróast á næstu dögum en ég stefni á að taka ákvörðun sem allra fyrst," sagði hann en Hannes hefur verið að æfa með uppeldisfélagi sínu, FH, nú í vetur.

„Það er frábært að æfa í Krikanum enda aðstaðan þar mjög góð. Það eru líka góðir leikmenn og þjálfarar hjá FH og mér hefur alltaf liðið vel hjá FH. Ef ég verð heima þá sé ég ekki fyrir mér að ég muni spila með nokkru öðru liði."

Hann segir að enn sé verið að vinna í sínum málum utan landsteinana. „Þannig hefur það verið síðustu vikur og mánuði. Ég hef fengið fullt af möguleikum en sem hafa farið í súginn, ýmist vegna meiðsla eða einfaldlega vegna þess að ekki náðust samningar. En ég hef ekki verið að stressa mig mikið á þessu og ég ætla ekki að taka einhverju tilboði bara til þess að komast út. Það sem er mikilvægast í augnablikinu er að ná mér góðum af þessum meiðslum svo ég geti byrjað að spila aftur."

„Það sem er mikilvægast er að manni líði vel og því ætla ég að taka rétta ákvörðun."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×