Enski boltinn

Arsenal-menn hafa áhyggjur af hnémeiðslum Robin van Persie

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robin van Persie
Robin van Persie Mynd/AP
Robin van Persie meiddist á hné í úrslitaleik deildarbikarins á móti Birmingham um helgina og það gæti vel farið svo að hann verði ekki með í seinni leiknum á móti Barcelona í Meistaradeildinni.

Arsenal-menn bíða nú óþreyjufullir eftir niðurstöðu úr myndatöku af hné Van Persie en niðurstöðurnar ættu að berast þeim seinna í dag.

Van Persie meiddist við það að skora jöfnunarmarkið í leiknum og menn óttast að hann hafi skaðað liðbönd í hné. Van Persie skoraði markið sitt á 39. mínútu en spilaði í rúman hálftíma eftir að hann meiddist.

Robin van Persie er ekki sá eini í Arsenal-liðinu sem gæti misst af Barcelona-leiknum því Theo Walcott missir af honum vegna ökklameiðsla og Cesc Fábregas er ekki orðinn góður eftir að hafa meiðst enn á ný aftan í læri.

Robin van Persie er búinn að fara á kostum til þessa á árinu 2011 en hann er þá með þrettán mörk í tólf leikjum í öllum keppnum. Hollendingurinn virtist loksins vera búinn að losa sig við fyrri meiðsli þegar hann meiddist enn á ný.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×