Enski boltinn

Kelly ekki með Liverpool á móti United og Meireles tæpur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Kelly.
Martin Kelly. Mynd/Nordic Photos/Getty
Hinn ungi Martin Kelly hefur slegið í gegn hjá Liverpool í vetur en hann verður ekki með næstu vikurnar eftir að hann meiddist aftan í læri í tapinu á móti West Ham á sunnudaginn. Kelly missir örugglega af leiknum á móti Manchester United um næstu helgi.

Það er ekki alveg ljóst ennþá hversu lengi Martin Kelly verður frá en líklega spilar hann ekki aftur með liðinu fyrr en í lok marsmánaðar. „Ég vissi strax að ég hafði meiðst aftan í læri og ég átti ekki möguleika á að halda áfram," sagði Martin Kelly eftir leikinn.

„Vonandi er þetta ekki mjög slæmt. Ég er vanalega fljótur að ná mér og við erum líka með gott læknalið hjá félaginu. Ég kem því vonandi fljótt aftur," sagði Kelly.

Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, þarf líka að hafa áhyggjur hnémeiðslum Portúgalans Raul Meireles sem þurfti einnig að koma útaf á móti West Ham. Hann er tæpur fyrir United-leikinn en þar verður liðið einnig án þeirra Daniel Agger, Sotirios Kyrgiakos, Fabio Aurelio og Andy Carroll sem á enn eftir að spila sinn fyrsta leik fyrir félagið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×