Enski boltinn

Mancini: Næstu 20 dagar verða mjög mikilvægir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Mancini, stjóri Manchester City.
Roberto Mancini, stjóri Manchester City. Mynd/Nordic Photos/Getty
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, er ekki búinn að afskrifa það að vinna einhverja titla á þessu tímabili. City er tíu stigum á eftir Manchester United í ensku úrvalsdeildinni en er enn með í bikarnum og Evrópudeildinni.

Manchester City mætir Aston Villa í enska bikarnum annað kvöld og í boði er leikur á móti Everton eða Reading í átta liða liða úrslitum keppninnar.

„Við eigum góða möguleika á að vinna eitthvað á þessu tímabili en til þess þurfum við að komast í gegnum næstu 20 daga. Næstu 20 dagar eru mjög mikilvægir fyrir okkur," sagði Roberto Mancini í viðtali við Sky Sports.

„Við mætum Aston Villa í þessari viku og spilum síðan í Evrópudeildinni í næstu viku. Þetta er spurning um að vinna þennan fyrsta bikar því þá munu fleiri fylgja í kjölfarið. Þessi fyrsti verður því mjög stór fyrir okkur," sagði Mancini.

Mancini tjáði sig líka aðeins um stórleik Chelsea og Manchester United sem fer fram í kvöld. „Þetta er síðasti möguleikinn fyrir Chelsea að vera með í titilbaráttunni," sagði Mancini á sinni bjöguðu ensku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×