Innlent

Alvarlegt að vera dæmdur á Sogn

SB skrifar

Það er mun alvarlegra að vera dæmdur ósakhæfur til vistunar á stofnun en í fangelsi, segir yfirlæknir Réttargeðdeildarinnar að Sogni. Hann segir lágmarkstíma vistunar vera að minnsta kosti tvö ár en dæmi eru um að menn dvelji þar í áratugi.



Ættingjar Hannesar Þórs Helgasonar eru ósáttir við að Gunnar Rúnar hafi verið dæmdur til vistunar á Sogni. Þeir segja það óásættanlegt að Gunnar Rúnar eigi möguleika á að vera kominn aftur á götuna eftir örfáa mánuði eða vikur.



Sigurður Páll Pálsson, yfirlæknir á réttargeðdeildinni að Sogni, segir það misskilning að menn geti verið látið svo fljótt lausir. „Ég held það sé misskilningur á ferðinni. Það er miklu alvarlega að vera dæmdur ósakhæfur. Miklu alvarlegri reglur en í fangelsum," segir Sigurður Páll. Hann bendir á að sjúklingar á Sogni fari ekki í leyfi.



Að Sogni hefur verið starfrækt réttargeðdeild síðan árið 1992. Þar áður voru engin úrræði hér á landi fyrir þá afbrotamenn sem voru veikir á geði og þurfti þá annaðhvort að vista þá erlendis eða í venjulegum fangelsum hér heima. Vistmenn að Sogni dvelja þar að meðaltali 4 ár, dæmi eru um að vistmenn hafi dvalið þar í átján ár eða lengur.



Sigurður Páll bendir á að hámarkstími á stofnuninni sé enginn. Menn fari ekki þaðan út fyrr en þeir séu dæmdir út með dómi. Einstaklingar séu teknir inn til mats og kortlagningar og metið á ákveðnum fresti hvort ráðlagt sé að fá þá út til rýmkunar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×