Enski boltinn

Brynjar Björn og félagar slógu Everton úr leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jack Mills, til hægri, fagnar marki sínu í kvöld.
Jack Mills, til hægri, fagnar marki sínu í kvöld. Nordic Photos / Getty Images
Reading komst í kvöld áfram í fjórðungsúrslit ensku bikarkeppninnar með 1-0 sigri á úrvalsdeildarliði Everton á útivelli.

Jack Mills skoraði eina mark leiksins á 26. mínútu en það kom í kjölfar hornspyrnu. Mills reyndi skalla að marki en fékk svo boltann aftur og náði að skjóta honum í gegnum þvögina í teig Everton og í netið.

Brynjar Björn Gunnarsson var í byrjunarliði Reading og lék allan leikinn sem vinstri bakvörður. Þetta var aðeins í sjöunda skiptið í vetur sem Brynjar Björn er í byrjunarliði Reading á tímabilinu og í annað skiptið síðan í september.

Everton byrjaði ágætlega í leiknum en lét mark gestanna algerlega slá sig út af laginu. Reading var nálægt því að komast í 2-0 í upphafi síðari hálfleiks þegar að Ian Harte átti hörkuskot að marki Everton úr aukaspyrnu en hárfínt framhjá.

Everton sótti stíft að marki Reading á lokakafla leiksins. Louis Saha átti skot að marki en það var varið á marklínu af liðsfélaga hans, Jermaine Beckford. Leon Osman átti svo skot að marki af stuttu færi en Alex McCarthy, markvörður Reading, var á hárréttum stað og varð fyrir skotinu.

Þar við sat og mun nú Reading mæta annað hvort Manchester City eða Aston Villa í fjórðungsúrslitum en þau munu eigast við annað kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×