Enski boltinn

Hermann spilaði í fimmta sigri Portsmouth í röð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hermann Hreiðarsson í leik með Portsmouth.
Hermann Hreiðarsson í leik með Portsmouth. Nordic Photos / Getty Images
Hermann Hreiðarsson hefur átt frábæra endurkomu í lið Portsmouth og spilaði allan leikinn í kvöld er liðið vann 2-0 sigur á Scunthorpe á heimavelli.

Dave Kitson og Aaron Mokoena skoruðu mörk Portsmouth í kvöld og lék Hermann að venju í stöðu vinstri bakvarðar.

Hann sleit hásin fyrir tæpu ári síðan og byrjaði að spila aftur í október en hafði þar til á í febrúar oftast komið við sögu sem varamaður.

Hermann vann sér svo fast sæti í byrjunarliðinu á ný þegar Portsmouth tapaði fyrir QPR, 2-0, þann 1. febrúar síðastliðinn. En síðan þá hefur Portsmouth ekki tapað leik og unnið síðustu fimm.

Hermann hefur spilað hverja einustu mínútu í þessum leikjum og er liðið nú komið upp í tólfta sæti deildarinnar með 47 stig. Portsmouth er aðeins sjö stigum á eftir Leeds sem er í sjötta sætinu og því síðasta sem veitir umspilsrétt um sæti í ensku úrvalsdeildinni.

Það var einnig leikið í ensku C-deildinni í kvöld. Jóhannes Karl Guðjónsson lék allan leikinn fyrir Huddersfield sem vann 1-0 útisigur á Hartlepool. Ármann Smári Björnsson var ekki í hópnum hjá Hartlepool.

Þá var Matthías Vilhjálmsson ekki í leikmannahópi Colchester sem vann 1-0 útisigur á Bristol Rovers.

Huddersfield er í þriðja sæti deildarinnar og Colchester í því sjöunda.

Í Skotlandi vann Hibernian 2-1 sigur á Hamilton á útivelli. Guðlaugur Victor Pálsson lék allan leikinn fyrir Hibernian sem er á mikilli siglingu og hefur unnið fimm leiki í röð. Liðið var í næstneðsta sæti þegar Guðlaugur kom til liðsins í janúar en er nú í því áttunda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×