Enski boltinn

Wenger: Erum með miklu hærri markmið en deildarbikarinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger, stjóri Arsenal.
Arsene Wenger, stjóri Arsenal. Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, er sannfærður um að sínir menn láti tapið í úrslitaleik deildarbikarsins ekki hafa neikvæð áhrif á sig. Arsenal mætir Leyton Orient í enska bikarnum í kvöld aðeins þremur dögum eftir að þeim mistókst að enda sex ára bið eftir titli.

„Við verðum að lifa með hrakspám og skoðunum annarra og halda áfram okkar striki að þeim markmiðum sem við höfum," sagði Arsene Wenger.

„Við erum í titilbaráttunni í deildinni, eigum möguleika á því að komast áfram í bikarnum og unnum fyrri leikinn í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Við erum með miklu hærri markmið en deildarbikarinn þó svo að við hefðum vissulega viljað vinna hann," sagði Wenger.

„Við megum ekki láta þetta tap hafa slæm áhrif á okkur því við ætlum okkur að ná okkar stóru markmiðum á þessu tímabili. Við erum í góðum gír og úrslitin um helgina voru ekki af því að við vorum að spila illa. Við erum í toppgír og höfum verið að spila mjög vel undanfarið," sagði Wenger.

„Það voru auðvitað mikil vonbrigði hjá öllum í búningsklefanum eftir leik en allir leikmenn eru sameinaðir og staðráðnir í að standa sig í þessum krefjandi verkefnum sem eru framundan," sagði Wenger.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×