Enski boltinn

John O'Shea: Giggs getur spilað til fertugs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ryan Giggs og Paul Scholes.
Ryan Giggs og Paul Scholes. Mynd/AFP
John O'Shea, liðsfélagi Ryan Giggs hjá Manchester United, sér ekkert því til fyrirstöðu að Giggs geti spilað með liðinu til fertugs. Giggs er 37 ára gamall og í dag eru liðin tuttugu ár síðan að hann spilaði sinn fyrsta leik með United.

„Það er enginn efi í mínum huga að hann getur spilað til fertugs. Hans líkamlega atgervi hefur ekki breyst síðan að ég kom hingað og hann hugsar svo vel um sig," sagði John O'Shea.

„Þetta fer aðallega eftir því hvort hann verði heppinn með meiðsli en ég veit líka að hann mun bara taka eitt tímabil í einu," sagði O'Shea.

„Hann hefur bara svo gaman af þessu eins og er og því sé ég ekki neitt í spilunum að hann sé farinn að hugsa um að hætta. Hann verður nú samt að ákveða þetta sjálfur," sagði O'Shea.

Giggs jafnaði leikjamet  Bobby Charlton í gær með því að spila sinn 606. deildarleik með United á móti Chelsea. O'Shea segir að það sé aðeins Paolo Maldini sem standist samanburð við Giggs.

„Þetta er ótrúlegur ferill enda getum við skoðað öll þessi lið sem stjórinn er búinn að setja saman og Giggsy var í stóru hlutverki í þeim öllum.  Maldini er sá eini sem á að baki sambærilegan feril en Giggs er kominn fram úr honum," sagði O'Shea.

„Menn eru búnir að nota allar klisjur í bókinni til þess að lýsa þessum manni og ég veit að menn eiga eftir að nota þær aftur og aftur.  Hann er algjör goðsögn," sagði O'Shea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×