Enski boltinn

Brynjar Björn má fara frá Reading

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Brynjar Björn Gunnarsson.
Brynjar Björn Gunnarsson. Mynd/Arnþór
Enska B-deildarfélagið Reading virðist vera reiðubúið að leyfa Brynjari Birni Gunnarssyni að gera lánssamning við annað lið í Englandi.

Brynjar Björn hefur lítið fengið að spila að undanförnu með Reading og hefur aðeins tvívegis verið í byrjunarliðinu síðan í september. Hann spilaði reyndar allan leikinn þegar að Reading sló Everton úr leik í ensku bikarkeppninni í gær, þá sem vinstri bakvörður.

„Hann er búinn að ræða við stjórann og fengið leyfi til að fara annað á láni," sagði Ólafur Garðarsson, umboðsmaður Brynjars Björns, í viðtali á fréttavef Sky Sports.

Brynjar Björn á langan feril að baki í Englandi en hann gekk til liðs við Stoke árið 2000 eftir að hafa verið í tvö ár á Norðurlöndunum. Hann lék einnig með Nottingham Forest og Watford á sínum tíma en er nú á sínu sjötta tímabili hjá Reading.

Samningur hans við félagið rennur út í sumar en hann sagðist nýverið í viðtali við Morgunblaðið áætla að vera í Englandi í 1-2 ár til viðbótar. Hann er 35 ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×