Enski boltinn

Sir Alex Ferguson á leiðinni í bann?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United.
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United. Mynd/AP
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, gæti verið í vandræðum vegna ummæla sín um dómgæsluna í leik Chelsea og United á þriðjudaginn. Aganefnd enska sambandsins ætlar að skoða sérstaklega viðtal Sir Alex á MUTV-sjónvarpsstöðinni.

Ferguson var allt annað en ánægður með frammistöðu dómarans Martin Atkinson sem hefði auðveldlega getað rekið David Luiz útaf áður en hann dæmdi umdeilt víti á United. Frank Lampard skoraði síðan sigurmark Chelsea úr vítinu.

Enska sambandið ætlar að skoða sérstaklega ummæli Ferguson um að Atkinson hafi ekki verið sanngjarn og að hann hafi óttast það að fá óhgastæða dómgæslu um leið og hann sá hver myndi dæma leikinn.

„Þú vilt frá sanngjarna dómgæslu og í það minnsta ákveðinn dómara. Við fengum það ekki. Ég verð líka að segja að ég óttaðist þetta þegar ég sá hver myndi dæma leikinn. Ég óttaðist hið versta," sagði Ferguson á MUTV.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ferguson gagnrýnir störf Atkinson og þá er hann enn á tveggja leikja skilorði vegna ummæla sinna um Alan Wiley árið 2009.

Ákveði enska sambandið að kæra Ferguson yrði það í fimmta sinn á fimm árum sem hann kæmi fyrir aganefndinda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×