Enski boltinn

Kolo Toure féll á lyfjaprófi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kolo Toure í leik með Manchester City.
Kolo Toure í leik með Manchester City. Nordic Photos / Getty Images
Kolo Toure hefur verið settur í keppnisbann eftir að hann féll á lyfjaprófi. Þetta var tilkynnt á heimasíðu Manchester City í dag.

Þar kemur fram að A-sýni Toure hafi skilað jákvæðum niðurstöðum fyrir „ákveðið efni" en ekki er nánar tilgreint um hvert umrætt efni sé. Það var ákvörðun félagsins að setja Toure í bann.

Honum hefur nú verið bannað að spila með bæði aðalliði og varaliði Manchester City þar til annað kemur í ljós.

Það kom einnig fram að City muni ekki tjá sig frekar um málið.

Toure er 29 ára gamall og var keyptur frá Arsenal fyrir fjórtán milljónir punda árið 2009. Viðurlög við neyslu ólöglegra efna getur verið allt að tveggja ára keppnisbann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×