Enski boltinn

Cesc og Song á góðri leið - ættu að ná Barcelona-leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cesc Fabregas og Alex Song.
Cesc Fabregas og Alex Song. Mynd/Nordic/Photos
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, færði stuðningsmönnum sínum jákvæðar fréttir á blaðamannafundi þegar hann taldi líkur á því að bæði Cesc Fabregas og Alex Song verði orðnir góðir af meiðslum sínum fyrir seinni leikinn á móti Barcelona í Meistaradeildinni.

Cesc Fabregas og Alex Song hvíla í leiknum á móti Sunderland í dag en þeir eru liðinu gríðarlega mikilvægir sem sást í fyrri leiknum á móti Barcelona sem Arsenal vann 2-1.

„Þeir eru báðir á réttri leið fyrir Barcelona-leikinn og eiga báðir möguleika á að vera með," sagði Arsene Wenger.

„Eins og staðan er núna þá Fabregas meiri möguleika á að vera með en þeir  eiga samt báðir einhverja möguleika," sagði Wenger sem sparaði greinilega yfirlýsingarnar en það má búast við að bæði Cesc og Song verði í liðinu á þriðjudaginn.

Wenger talaði líka um endurkomu Aaron Ramsey sem hefur ekkert spilað með liðinu síðan að hann fótbrotnaði á móti Stoke í febrúar í fyrra.

„Aaron hefur þurft að sýna mjög mikla þolinmæði og hann hýtur að vera mjög ánægður með að vera kominn til baka. Það er venjan að þeir sem meiðast illa fyrir 20 ára aldurinn eiga að geta komið aftur og þroskast eðlilega sem fótboltmenn," sagði Wenger en Ramsey var orðinn fastamaður í Arsenal-liðinu þegar að hann meiddist.

„Þetta hefur reynt á hann og hann hefur verið niðurdreginn í langan tíma. Engu að síður hefur hann sýnt það að hann er ákveðinn í því að koma til baka og hefur lagt mikið á sig til þess. Hann hefur staðið sig frábærlega í endurkomunni og nú þarf hann bara að fara spila leiki," sagði Wenger.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×