Fótbolti

Alfreð skoraði í þriðja leiknum í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason. Mynd/Daníel
Alfreð Finnbogason er heldur betur búinn að stimpla sig inn hjá belgíska liðinu Sporting Lokeren en hann skoraði í kvöld í sínum þriðja leik í röð síðan að hann fékk fyrsta tækifærið í byrjunarliðinu. Lokeren vann þá 2-1 heimasigur á Zulte-Waregem.

Alfreð skoraði markið sitt úr fyrstu alvöru sókn leiksins strax á 2. mínútu. Hann fékk þá boltann eftir skyndisókn og skallasendingu félaga síns og skoraði laglega með fyrstu snertingu.

Benjamin De Ceulaer kom Lokeren í 2-0 á 9.mínútu og Laurens De Bock klikkaði síðan á vítaspyrnu á 18.mínútu.

Zulte-Waregem minnkaði muninn á 48. mínútu en missti svo mann af velli með rautt spjald á 55. mínútu. Lokeren tókst hinsvegar ekki að nýta sér það að vera manni fleiri í 35 mínútur en vann góðan sigur og kom sér upp í fimmta sæti deildarinnar.

Alfreð skoraði í fyrsta leiknum sínum í byrjunarliðinu sem var á móti Charleroi (1-1 jafntefli) og hann skoraði einnig eftir að hafa komið inn á sem varamaður í 1-2 tapi á móti Club Brugge. Leikurinn í kvöld var hinsvegar sá fyrsti þar sem mark frá Alfreð hjálpar Lokeren að vinna leik.

Alfreð hefur því skoraði 3 mörk á fyrstu 270 mínútum sínum í belgísku deildinni sem er ekki slæm byrjun fyrir 22 ára strák að stíga sína fyrstu skref í atvinnumennsku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×