Enski boltinn

Blatter: Enska sambandið hefði mátt refsa Rooney

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney og Mark Clattenburg.
Wayne Rooney og Mark Clattenburg. Mynd/AP
Sepp Blatter, forseti FIFA, segir að enska knattspyrnusambandið hefði haft fullan rétt á því að refsa Wayne Rooney fyrir olnbogaskotið sem hann gaf James McCarthy hjá Wigan í leik liðanna um síðustu helgi.

Mark Clattenburg, dómari leiksins, dæmdi aukaspyrnu á Rooney en gaf ekkert spjald. Það var þá túlkun enska sambandsins að þeirra fulltrúi (dómarinn) væri búinn að útskurða um þetta atvik og því væri ekkert hægt að gera meira í málinu.

Blatter sagði á blaðamannafundi í gær að hvert knattspyrnusamband gæti ákveðið það sjálft hvernig það tæki á svona málum.

„Hvert knattspyrnusamband fyrir sig ræður hér förinni. Það er viðurkennt að nota myndbönd í aganefndum sambandanna. Þeir hafa rétt til að grípa inn í og breyta dómum ef vitlaus leikmaður hefur fengið gult eða rautt spjald," sagði Sepp Blatter og bætti við:

„Ef það er um ofbeldi á velli að ræða þá getur hvert knattspyrnusamband gripið inn og refsað leikmanninum burt séð frá því sem dómarinn hefur dæmt," sagði Blatter.

Hefði Wayne Rooney fengið rautt spjald hefði hann misst af bæði af leiknum á móti Chelsea á þriðjudaginn sem og af leiknum á móti Liverpool í dag.

Enska knattspyrnusambandið ákvað hinsvegar að gera ekkert í málinu og Wayne Rooney slapp með skrekkinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×