Enski boltinn

Suárez: Mikilvægt fyrir okkur að hvorki Vidic eða Ferdinand séu með

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suarez fagnar marki með félögum sínum í Liverpool.
Luis Suarez fagnar marki með félögum sínum í Liverpool. Mynd/Nordic Photos/Getty
Luis Suarez er tilbúinn í alvöruslag þegar Liverpool tekur á móti Manchester United á Anfield í dag og hann vill helst hafa Andy Carroll við hlið sér í leiknum. Suarez segir að Diego Forlan hafi sagt sér allt um mikilvægi leikja United og Liverpool í hugum allra sem tengjast þessum liðum.

„Diego sagði mér að þetta væri mikilvægasti leikur tímabilsins fyrir bæði okkur og þá. Ég hef spilað í stórum derby-leikjum í Hollandi, í Úrúgvæ og með landsliðinu á móti Argentínu. Ég hef því reynslu úr svona leikjum og er bara yfirvegaður fyrir þennan leik," sagði Luis Suarez.

„Liðið er í góðu jafnvægi eins og er og ég er viss um að við kunnum að nálgast svona leik með réttum hætti," sagði Suarez. Suarez gæti fengið tækifæri að spila með Andy Carroll í fyrsta sinn en það eru þó ekki taldar miklar líkur á því að þeir verði saman í byrjunarliðinu.

„Hann er mjög stór, sterkur í loftinu og með góða fætur. Varnarmennirnir eru bara líka stórir og sterkir í loftinu. Það verður því gaman að fylgjast með einvígum hans en ég veit samt ekki alveg hvernig menn ætla að ráða við hann," sagði Suarez.

„Það er mikilvægt fyrir okkur að hvorki (Nemanja) Vidic eða (Rio) Ferdinand séu með í þessum leik en það er nú samt góð ástæða fyrir því að leikmenn fá að klæðast búningi United," sagði Suarez.

„Við vitum að þessi leikur er mikilvægur og það eru ekki bara stigin þrjú sem skipta máli. Við verðum líka að gera okkar í að koma í veg fyrir að United vinni titilinn af því að félögin eru nú með jafnmarga titla," sagði Suarez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×