Enski boltinn

Manchester United gæti keypt Reina á 22 milljónir punda í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pepe Reina.
Pepe Reina. Mynd/AFP
Enska slúðurblaðið The Sun sló því upp í morgun að Manchester United ætlaði að kaupa spænska landsliðsmarkvörðinn Pepe Reina frá Liverpool í sumar og borga fyrir hann 22 milljónir punda. Þessar fréttir ættu að hrista aðeins upp í stuðningsmönnum félaganna fyrir stórleik liðanna á Anfield í dag.

Manchester United er enn að leita að eftirmanni Edwin van der Sar og auk Pepe Reina hafa  David De Gea (Atletico Madrid), Maarten Stekelenburg (Ajax) og Manuel Neuer (Schalke) allir verið orðaðir við United á síðustu vikum.

Pepe Reina er 28 ára gamall og skrifaði undir sex ára samning við Liverpool fyrir tæpu ári síðan. Hann vildi síðan komast til Arsenal tveimur mánuðum síðar en Liverpool hafnaði þá fimmtán milljón punda tilboði í hann.

Manchester United er ekki eina stórliðið sem er á eftir Pepe Reina því Arsenal sárvantar einnig heimsklassa markvörð. Það sem ýtir líka undir allar þessar vangaveltur er að markvörðurinn sjálfur er ekki tilbúinn að gefa það út að hann verði áfram á Anfield næstu árin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×