Enski boltinn

Defoe íhugaði að fara frá Tottenham í janúar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Defoe fagnar öðru marka sinna gegn Wolves.
Defoe fagnar öðru marka sinna gegn Wolves. Nordic Photos / Getty Images
Jermain Defoe skoraði sín fyrstu deildarmörk fyrir Tottenham á tímabilinu er liðið gerði 3-3 jafntefli gegn Wolves um helgina. Hann viðurkennir þó að hafa íhugað stöðu sína hjá liðinu þegar félagaskiptaglugginn var opinn í janúar síðastliðnum.

Rafael van der Vaart kom til Tottenham í sumar og bitnaði það á Defoe. Harry Redknapp, stjóri liðsins, hefur yfirleitt kosið að láta van der Vaart spila í stöðu sóknartengiliðs og vera þá með aðeinn einn leikmann í fremstu víglínu.

Þeir Peter Crouch og Roman Pavlyuchenko hafa oftast deilt því hlutverki og Defoe því yfirleitt þurft að sitja á bekknum.

En hann fékk sénsinn um helgina þegar að van der Vaart var ekki með og Defoe spilaði í sókninni með Pavlyuchenko. Hann vonast til að frammistaða sín í leiknum sé nóg til að hann fái aftur tækifæri þegar að Tottenham tekur á móti AC Milan í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu annað kvöld.

„Þetta hefur verið erfitt," sagði Defoe í samtali við enska fjölmiðla. „Maður fer að velta því fyrir sér hvað maður sé að gera hjá þessu félagi því ég er vanur því að spila í stóru leikjunum."

„Ég hef spilað mikilvæga leiki bæði með mínum félagsliðum og landsliðinu."

„Þetta verður erfiður leikur gegn Milan og ég vona að ég fái að spila. Ef ég næ að skora og við vinnum leikinn væri það frábært."

„En ég man þegar að ég spilaði gegn Charlton í bikarnum í janúar og skoraði þá tvö mörk var ég aftur kominn á bekkinn í næsta leik," bætti hann við.

„Ég held þó að félagið hefði ekki leyft mér að fara annað á lánssamningi. Þannig var það þegar ég ákvað að fara frá Tottenham til Portsmouth á sínum tíma því þá sætti ég mig ekki við þetta."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×