Fótbolti

Ísland í öðrum styrkleikaflokki í undankeppni EM 2013

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir fagnar marki í leik með íslenska landsliðinu.
Margrét Lára Viðarsdóttir fagnar marki í leik með íslenska landsliðinu. Mynd/Vilhelm
Dregið verður í undankeppni Evrópumeistaramóts kvenna á mánudaginn kemur og verður Ísland í öðrum styrkleikaflokki af fimm.

Liðunum er raðað í styrkleikaflokka samkvæmt stigagjöf UEFA sem endurspeglar árangur liðanna í síðustu tveimur stórmótum og undankeppnum þeirra, sem og undankeppni HM 2011 sem haldið verður í Þýskalandi í sumar. Samkvæmt því kerfi er Ísland tíunda sterkasta lið Evrópu.

Alls eru 38 lið í pottinum og skiptast þau í sjö riðla. Sex lið verða í þremur riðlum og fimm lið í hinum fjórum.

Tólf lið komast í úrslitakeppni EM sem haldin verður í Svíþjóð sumarið 2013. Undankeppnin hefst í september næstkomandi og stendur yfir í eitt ár.

Sigurvegarar riðlanna sjö komast í lokakeppnina ásamt liðinu sem nær bestum árangri í öðru sæti.

Hin liðin sex sem verða í öðru sæti riðlanna taka þátt í umspili um þrjú laus sæti til viðbótar.

Sama fyrirkomulag var á undankeppninni fyrir EM 2009 í Finnlandi en þá varð Ísland í öðru sæti í sínum riðli og vann svo lið Írlands í umspilinu. Ísland keppti þá í fyrsta sinn í lokakeppni stórmóts.

Ísland leikur í dag til úrslita á hinu geysisterka Algarve Cup-móti í dag gegn Bandaríkjunum. Stelpurnar hlutu fullt hús stiga í sínum riðli með því að vinna Svíþjóð, Danmörku og Kína. Leikurinn hefst klukkan 17.00 í dag.

1. styrkleikaflokkur: Þýskaland, Noregur, England, Frakkland, Ítalía, Danmörk, Finnland.

2. styrkleikaflokkur: Rússland, Holland, Ísland, Spánn, Úkraína, Skotland, Tékkland.

3. styrkleikaflokkkur: Sviss, Pólland, Írland, Austurríki, Belgía, Hvíta-Rússland, Slóvenía.

4. styrkleikaflokkur: Ungverjaland, Serbía, Portúgal, Grikkland, Slóvakía, Rúmenía, Wales.

5. styrkleikaflokkur: Búlgaría, Norður-Írland, Tyrkland, Ísrael, Eistland, Króatía, Kasakstan, Bosnía, Armenía, Makedónía.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×