Fótbolti

Eina tap bandaríska liðsins frá 2006 var eftir vítakeppni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carli Lloyd og Alex Morgan fagna einu af fjórum mörkum sínum á móti Finnlandi.
Carli Lloyd og Alex Morgan fagna einu af fjórum mörkum sínum á móti Finnlandi. Mynd/AP
Ísland og Bandaríkin mætast klukkan 17.00 í dag í úrslitaleik Algarve-bikarsins í Portúgal. Þetta er fyrsti úrslitaleikur íslensku stelpnanna á þessu móti en bandaríska liðið er hinsvegar að spila til úrslita í mótinu níunda árið í röð og í ellefta skiptið alls.

Bandaríska liðið er búið að vinna alla þrjá leiki sína í mótinu í ár og vann alla fjóra leiki sína á mótinu í fyrra. Bandarísku stelpurnar eru búnar að vinna 18 af síðustu 19 leikjum sínum í Algarve-bikarnum (frá og með árinu 2007) og eina tapið var eftir vítaspyrnukeppni á móti Svíum í úrslitaleik mótsins árið 2009.

Bandaríska liðið hefur alls unnið 7 af 11 úrslitaleikjum sínum á mótinu. Noregur (1994), Kína (1999), Þýskaland (2006) og Svíþjóð (2009) hafa náð að vinna bandaríska liðið í úrslitaleik í Algarve-bikarnum þar af tapaði bandaríska liðið úrslitaleikjunum 2006 og 2009 báðum í vítakeppni.

Ísland er sjöunda þjóðin sem nær því að spila úrslitaleik í Algarve-bikarnum en sex þeirra hafa náð að vinna mótið: Bandaríkin, Noregur, Svíþjóð, Kína og Þýskaland. Dönsku stelpurnar hafa fimm sinnum spilað til úrslita í Algarve-bikarnum en þær hafa tapað í öll skiptin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×