Enski boltinn

Kálfinn enn til vandræða hjá Van der Vaart

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rafael van der Vaart.
Rafael van der Vaart.
Hollendingurinn Rafael van der Vaart er enn á ný meiddur og mun ekki vera með Tottenham á móti Blackpool í ensku úrvalsdeildinni á morgun. Van der Vaart er aftur meiddur á kálfa en þessi þráðlátu kálfameiðsli hafa háð honum allt þetta tímabil.

„Rafa meiddist aftur á kálfa á æfingu í gær og hann er ekki nógu góður. Hann var búinn að missa af nokkrum leikjum en spilaði síðan í 70 mínútur í Mílanó án þess að finna mikið fyrir þessu. Hann var síðan aftur orðinn slæmur í gærmorgun," sagði Harry Redknapp, stjóri Tottenham.

„Þetta er vissulega áfall því hann er frábær leikmaður og við þurfum á honum að halda ef við ætlum að ná markmiðum okkar," sagði Redknapp en Tottenham er í mikilli baráttu um Meistaradeildarsæti.

Redknapp kennir því aðallega um að Rafael van der Vaart hafi ekki getað tekið þátt í fullu undirbúningstímabili vegna HM síðasta sumar og þess vegna sé hann alltaf að meiðast.

„Við fáum smá hlé eftir Blackpool-leikinn, svo spilum við Wolves 6. mars áður en við spilum við AC Milan. Ég vona að hann verði orðinn góður fyrir Wolves-leikinn því hann reif ekki neitt í kálfanum," sagði Redknapp.

Gareth Bale er líka meiddur en á batavegi. Hann verður samt ekki með á móti Blackppol á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×