Enski boltinn

Ally McCoist tekur við Rangers-liðinu af Walter Smith

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ally McCoist með Walter Smith.
Ally McCoist með Walter Smith. Mynd/Nordic Photos/Getty
Ally McCoist mun taka við stjórastöðunni hjá skoska liðinu Rangers þegar Walter Smith hættir í vor. Þetta tilkynnti félagið í dag. McCoist sem er 48 ára gamall hefur verið aðstoðarmaður Smith frá því í janúar 2007 og það hefur lengi stefnt í það að McCoist fengi starfið.

Hinn 62 ára gamli Walter Smith hafði áður gefið það út að þetta yrði síðasta tímabilið hans á Ibrox og það var hans vilji að Ally McCoist fengi að taka við af honum. Smith er búið að gera Rangers-liðið að skoskum meisturum undanfarin tvö ár en liðið er nú í öðru sæti á eftir Celtic.

Ally McCoist átti mjög farsælan feril með félaginu og skoraði 355 mörk í 581 leikjum fyrir Rangers á árunum 1983 til 1998. Hann var fyrst aðstoðarmaður Smith hjá skoska landsliðinu en fylgdi honum síðan yfir til Rangers.

McCoist vann alls tíu meistaratitla sem leikmaður með Rangers en tímabilin 1991-92 og 1992-93 varð hann markhæsti leikmaður í Evrópu þegar liðið var einmitt undir stjórn Walter Smith.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×