Enski boltinn

Blackpool vann óvæntan 3-1 sigur á Tottenham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
William Gallas og félagar töpuðu dýrmætum stigum í kvöld.
William Gallas og félagar töpuðu dýrmætum stigum í kvöld. Mynd/AFP
Tottenham óð í færum á Bloomfield Road í kvöld en það voru heimamenn í Blackpool sem skoruðu mörkin og unnu óvæntan 3-1 stórsigur. Tottenham var búið að vinna þrjá deildarleiki í röð og hafði ekki tapað nema einum af síðustu fimmtán leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni.

Tapið getur orðið dýrkeypt fyrir Tottenham í baráttu liðsins um sæti í Meistaradeildinni á næsta ári en Chelsea getur nú komist upp fyrir þá í fjórða sætið með sigri í leik sem Chelsea-liðið á inni.

Blackpool komst í 1-0 eftir 18 mínútna leik þegar Sebastien Bassong felldi DJ Campbell klaufalega og Charlie Adam skoraði úr vítaspyrnunni.

DJ Campbell var síðan sjálfur á ferðinni á lokamínútu fyrri hálfleiksins þegar hann skoraði af stuttu færi eftir laglega skyndisókn og sendingu James Beattie. Nýi maðurinn Sergei Kornilenko átti mikinn þátt í undirbúningi marksins þegar hann átti laglega hælsendingu á Beattie.

Brett Ormerod skoraði síðan þriðja mark Blackpool á 80. mínútu og innsiglaði sigurinn sem var sá fyrsti hjá liðinu síðan að liðið vann Liverpool 12. janúar.

Rússinn Roman Pavlyuchenko náði loksins að minnka muninn fyrir Tottenham í uppbótartíma en nær komust þeir ekki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×