Enski boltinn

Kuyt: Getum enn náð Meistaradeildarsæti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Dirk Kuyt segir að þrátt fyrir slæmt gengi Liverpool í haust eigi liðið enn möguleika á einu af efstu fjórum sætum ensku úrvalsdeildarinnar.

Kuyt tryggði sínum mönnum 1-0 sigur á Spörtu Prag í gær er liðið tryggði sér sæti í 16-liða úrslitum Evrópudeildar UEFA.

Liverpool er nú í sjötta sæti deildarinnar og hefur ekki tapað í sex deildarleikjum í röð. Liðið er þó enn átta stigum á eftir Tottenham sem er í fjórða sætinu og því síðasta sem veitir þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. Chelsea er í fimmta sæti, tveimur stigum á eftir Tottenham en á leik til góða.

Kenny Dalglish tók við af Roy Hodgson sem knattspyrnustjóri í síðasta mánuði og hefur komið liðinu á réttan kjöl.

„Það eru svö mörg lið að tapa stigum í deildinni þetta tímabilið að mikið getur enn gerst," sagði Kuyt í samtali við enska fjölmiðla.

„En við þurfum fyrst og fremst að hugsa um okkur sjálfa. Við erum á ágætu róli eins og er en við skulum byrja á því að reyna að fá þrjú stig á sunnudaginn og sjá svo til," bætti hann við en Liverpool mætir þá West Ham á útivelli.

„Ef við getum minnkað þetta bil enn frekar - hver veit hvað gerist? Það er alltaf gott þegar andstæðingurinn tapar stigum en mestu máli skiptir að vinna sjálfur til stiga."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×