Enski boltinn

Hughes ánægður með æfingabúðir Fulham í Portúgal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen og félagar voru nálægt því að vinna Chelsea.
Eiður Smári Guðjohnsen og félagar voru nálægt því að vinna Chelsea. Mynd/AP
Eiður Smári Guðjohnsen og félagar í Fulham voru í æfingabúðum í Portúgal í vikunni þar sem liðið undirbjó sig fyrir leik á móti Manchester City í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.

„Flest félög sem eru ekki enn með í bikarnum eða deildarbikarnum nýta sér hléið til þess að fara með liðið í æfingabúðir. Þetta er langt tímabil og það hefur oft mjög áhrif að komast í nýtt umhverfi," sagði Mark Hughes, stjóri Fulham í viðtali á heimasíðu félagsins.

„Þetta gaf okkur tækifæri til þess að þjappa hópnum saman. Yfir tímabilið eru menn að hittast í nokkra tíma á dag og svo ferðumst við saman í útileiki. Svona æfingabúðir um mitt tímabil geta því haft mjög góð áhrif á hópinn og undirbúið liðið fyrir lokasprettinn á tímabilinu," sagði Hughes.

„Ég hef alltaf haft þennan háttinn á þessum tíma hjá þeim félögum sem ég hef verið hjá. Það hefur líka alltaf haft jákvæð áhrif á hópinn og ég vona að það verði einnig nú. Við vorum þarna til að æfa og við náðum mörgum góðum æfingum," sagði Hughes.

„Þessir strákar hafa spilað marga leiki undanfarin ár og náð góðum árangri en þeir voru að fara í fyrsta sinn í svona æfingabúðir á miðju tímabili. Þetta var ný reynsla hjá þeim og þeir höfðu mjög gaman af þessu. Það var gott að vera saman og vonandi sjáum við afraksturinn á sunnudaginn," sagði Hughes.

Eiður Smári hefur komið inn á sem varamaður í síðustu tveimur deildarleikjum Fulham en nú er að sjá hvort að styttist ekki í fyrsta leik hans í byrjunarliðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×