Enski boltinn

Man Utd. hefur ekki unnið deildarleik á Stamford Bridge í níu ár

Stefán Árni Pálsson skrifar
Paul Scholes skoraði þegar Man Utd. vann Chelsea árið 2002 á Stamford Bridge/ Mynd: Getty
Paul Scholes skoraði þegar Man Utd. vann Chelsea árið 2002 á Stamford Bridge/ Mynd: Getty
Viðureignir Manchester United og Chelsea hafa oftar ekki verið stórkostleg skemmtun og í meira lagi viðburðaríkar. Chelsea tekur á móti toppliði Manchester United á Stamford Bridge annað kvöld í einum af topp leikjum tímabilsins.



Man Utd. er sem stendur í efsta sæti deildarinnar með 60 stig heilum 15 stigum á undan Lundúnaliðinu, en lærissveinar Alex Ferguson hafa oftar en ekki átt í stökustu vandræðum með Chelsea.



Manchester United vann síðast deildarleik á Stamford Bridge fyrir níu árum en þá skoruðu þeir Ruud van Nistelrooy, Paul Scholes og Ole Gunnar Solskjaer mörk liðsins í 3-0 sigri. Síðan þá hafa heimamenn í Chelsea annaðhvort unnið leikina eða náð fram jafntefli.



Toppliðið í ensku úrvalsdeildinni hefur ekki náð að vinna Chelsea í deildarleik frá því í janúar 2009 eða fyrir meira en tveimur árum.



Manchester United hefur ekki verið sannfærandi á útivelli á tímabilinu og gert fjöldann allan af jafnteflum. Liðið bar sigur úr býtum gegn Wigan um helgina 4-0 en það var í fyrsta skipti á þessu tímabili sem Manchester United vinnur leik á útivelli með meira en eins marks mun.



Liðin hafa mæst 36 sinum frá því að enska úrvalsdeildin var stofnuð. 12 sinum hafa þeir blálæddu unnið, 10 sinum hefur Manchester United sigrað og 14 sinum hafa liðin gert jafntefli.



Fernando Torres sem gekk til liðs við Chelsea frá Liverpool í lok janúar hefur oftar en ekki gert lífið leitt fyrir Manchester United en hann hefur alls skoraði þrjú mörk gegn rauðu djöflunum. Torres hefur aftur á móti ekki komist á blað fyrir Chelsea.



Chelsea hefur ekki náð að koma boltanum inn fyrir marklínu andstæðingsins í síðustu tveimur deildarleikjum liðsins og því býður erfitt verkefni fyrir Fernando Torres og Didier Drogba í framlínu liðsins.



Leikurinn á morgun er gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið. Chelsea er sem stendur í fimmta sæti deildarinnar og mega því lítið misstíga sig þar sem sæti í Meistaradeild Evrópu er í húfi. Manchester United stendur í mikilli baráttu um Englandsmeistaratitilinn við Arsenal og því kemur fátt annað en sigur til greina fyrir þá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×