Enski boltinn

Ferguson ætlar ekki að vanmeta Crawley

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Manchester United tekur á móti utandeildarliði Crawley Town í fimmtu umferð ensku bikarkeppninnar á morgun.

Crawley Town hefur vakið mikla athygli fyrir framgöngu sína í bikarkeppninni en það er fyrsta utandeildarliðið sem kemst svo langt í bikarnum síðan að Kidderminster Harriers gerði það fyrir sautján árum síðan.

Félagið er með afar metnaðarfulla eigendur og er fjárhagsstaða félagsins sögð vera betri en hjá flestum liðum í ensku C- og D-deildunum.

Á leið sinn í 16-liða úrslitin lagði liðið til að mynda Swindon Town, Derby County og Torquay United - allt lið sem á pappírnum eiga að vera mun sterkari.

„Sú umræða hefur verið í gangi að bikarinn sé að deyja en það er alls ekki tilfellið. Sérstaklega þegar það eru lið sem tekst enn að slá út betri lið hvað eftir annað,“ sagði Ferguson.

„Það vill enginn lenda í því að tapa fyrir verra liði í bikarnum. Það getur hvaða knattspyrnustjóri sem er vottað.“

„Við töpuðum fyrir Leeds í fyrra og það var ekki auðvelt að kyngja því. En þeir áttu skilið að vinna okkur á þeim degi og það sama gæti gerst á morgun.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×