Enski boltinn

Crouch: Mun ekki leggja landsliðsskóna á hilluna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Peter Crouch á æfingu með enska landsliðinu
Peter Crouch á æfingu með enska landsliðinu Mynd/Getty Images
Enski landsliðsmaðurinn Peter Crouch gefur lítið fyrir sögusagnir þess efnis að hann ætli að hætta að gefa kost á sér í landsliðið. Crouch segist hafa orðið pirraður að hafa ekki verið í hópnum gegn Sviss um helgina. Hann elski þó að spila fyrir þjóð sína og muni halda því áfram.

Í viðtali við BBC segist Crouch hafa staðið sig vel með landsliðinu þegar hann hafi fengið tækifæri. Því hafi það verið vonbrigði að hafa ekki fengið að taka þátt í síðustu þremur landsleikjum liðsins.

„Að spila fyrir England er toppurinn á ferli hvers knattspyrnumanns og ég elska að gera það. Ef ég fæ mínútu inni á vellinum er ég sáttur og 90 mínútur eru ennþá betri."

„Að sjálfsögðu vil ég halda áfram að spila fyrir England. Ég mun aldrei gefa upp á bátinn að spila fyrir þjóð mína. Það er heiður," sagði Crouch.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×