Enski boltinn

Ekkert til í fréttum um ofurbata Johan Djourou

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Johan Djourou.
Johan Djourou. Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsenal hefur hafnað þeim fréttum að meiðsli varnarmannsins Johan Djourou séu ekki eins slæm og áður var talið og ítrekaði það í kvöld að Svisslendingurinn verði ekki meira með á þessu tímabili.

Johan Djourou meiddist illa á öxl eftir að hafa lent í samstuði við samherja sinn Bacary Sagna í 0-2 tapi Arsenal á móti Manchester United í ensku bikarkeppninni á Old Trafford á laugardaginn.

Svissneska knattspyrnusambandið lét það frá sér í morgun að axlarmeiðsli Djourou væru ekki eins alvarleg og leit út fyrir um helgina og í stað þess að missa af öllu tímabilinu þá ætti hann að geta farið að spila aftur í næsta mánuði.

Forráðamenn Arsenal segja þessar fréttir vera rangar og að leikmaðurinn sé á leiðinni til sérfræðings á morgun. Arsenal býst við að Djourou þurfi að gangast undir aðgerð sem þýðir að hann verði ekkert meira með í vetur.

Djourou hafði víst tilkynnt svissneska sambandinu að hann gerði sér vonir um að ná leiknum á móti Búlgaríu í undankeppni EM sem fer fram 26. mars næstkomandi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×