Fótbolti

Ashley Young tryggði Englendingum nauman sigur á Wales

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ashley Young.
Ashley Young. Mynd/Nordic Photos/Getty
Manchester United maðurinn Ashley Young skoraði eina mark leiksins þegar Englendingar unnu 1-0 sigur á Wales á Wembley í leik liðanna í undankeppni EM í kvöld. Enska landsliðið var langt frá því að vera sannfærandi í kvöld en sigurinn gefur Englendingum sex stiga forskot á Svartfjallaland á toppi G-riðils.

Enska landsliðið vantar því bara eitt stig til viðbótar til þess að tryggja sér sæti á EM en næsti leikur liðsins er útileikur í Svartfjallalandi í október.

Ashley Young skoraði sigurmarkið sitt á 35. mínútu með skoti rétt fyrir utan markteiginn eftir að Stewart Downing braust í gegn frá hægri og gaf boltann út á hann. Þetta var fyrsti sigur Englands á Wembley í eitt ár en liðið var búið að leika fjóra heimaleiki í röð án þess að vinna.

Svisslendingar unnu 3-1 sigur á Búlgörum í hinum leik riðilsins og eru nú þremur stigum á eftir Svartfjallandi sem er enn í öðru sætinu. Það má búast við harðri baráttu milli þessara þjóða um annað sætið í riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×