Íslenski boltinn

Ólafur Örn: Þetta var fyrsta færið mitt í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Örn Bjarnason, spilandi þjálfari Grindvíkinga, var hetja liðsins í gær þegar hann kom liðinu í 1-0 í 2-0 sigri Grindavíkur út í Eyjum. Markið kom á 80. mínútu leiksins en fram að því voru Grindvíkingar að falla úr deildinni. Grindvíkingar björguðu sér hinsvegar með frábærum sigri og það kom í hlut Þórsara að falla úr deildinni.

„Þetta var fyrsta færið mitt í sumar þannig að það var ágætt að skora úr þessu. Mér var svo sem sama hver skoraði eða hvenær markið kæmi bara ef við gætum landað sigri. Það var frábært að gera það á móti góðu liði við erfiðar aðstæður. Ég var ánægður með baráttuna og viljan í mönnum," sagði Ólafur Örn Bjarnason í viðtali í Pepsi-mörkunum í gær.

„Á meðan staðan er 0-0 er alltaf möguleiki að stela sigri og við náðum að pota inn einu þegar tíu mínútur voru eftir. Við ætluðum síðan að verja það eins og við gátum og við gerðum það. Þeir voru betri í leiknum en þeir lágu samt ekki neinum dauðafærum. Menn misstu aldrei trúna á meðan staðan var 0-0. Um leið og við skoruðum markið þá kom aukakraftur í menn og sem betur fer lönduðu við sigrinum," sagði Ólafur Örn.

Grindvíkurliðið kom á fimmtudag til Vestmannaeyja og undirbjó sig vel fyrir leikinn. „Menn breyttu þessu í jákvæðan undirbúning. Við vorum mikið saman á flottu hóteli og það var ekki hægt að kvarta yfir því. Aðalatriðið var að menn höfðu trú á því að það var hægt að gera þetta. Við sögðum það fyrir leikinn að það skipti engu máli þótt að markið kæmi undir lokin því á meðan staðan er 0-0 þá var þetta hægt og okkur tókst þetta," sagði Ólafur Örn.

„Við gátum hætt að hugsa um allt tímabilið því þetta var bara einn leikur sem skipti öllu máli. Það var allt eða ekkert í þessum leik og vitum það í bikarleikjum og öðru þegar það er einn leikur sem þú setur fókus á að þá skiptir ekki öllu máli hver staðan er í deildinni heldur hversu mikið menn vilja þetta. Mér fannst við vilja þetta meira í dag og er mjög ánægður með það," sagði Ólafur sem vildi ekki gefa það upp hvort að hann yrði áfram með Grindavíkurliðið. Það má sjá allt viðtalið með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×