Innlent

Krossmaður kannast ekki við ásakanir

Valur Grettisson skrifar
Gunnar Þorsteinsson, leiðtogi Krossins, er borinn alvarlegum ásökunum í Pressunni. Starfsmaður kannast ekki við sáttafundi.
Gunnar Þorsteinsson, leiðtogi Krossins, er borinn alvarlegum ásökunum í Pressunni. Starfsmaður kannast ekki við sáttafundi. Mynd / Anton Brink

„Ég kannast ekki við þessar ásakanir," segir starfsmaður trúfélagsins Krossins, Björn Ingi Stefánsson, en Pressan.is greinir frá því að óskilgreindur hópur kvenna hafi borið alvarlega ásakanir á hendur Gunnari Þorsteinssyni, leiðtoga safnaðarins.

Í frétt Pressunnar segir að Björn Ingi eigi að hafa komið á sáttafundum á milli Gunnars og kvennanna sem um ræðir. Þegar Vísir hafði samband við Björn sagðist hann ekki kannast við að hafa miðlað málum með þeim hætti sem lýst er í Pressunni.

Jónína Benediktsdóttir, athafnakona, hafði áður varað við því að sögusagnir væru farnar að kvisast út um Gunnar til þess að koma höggi á hana sjálfa vegna bókar sem hún gaf út á dögunum.

Þá var haldinn samverufundur hjá Krossinum fyrir nokkrum vikum, sem var oft nefndur neyðarfundur í fjölmiðlum, en þar upplýsti Gunnar söfnuð sinn um að alvarlegar sögusagnir væru komnar á kreik.

Björn Ingi segir Gunnar ekki hafa útskýrt á samverufundinum hvaða sögusagnir um væri að ræða.

Aðspurður hvort Björn Ingi kannaðist við ásakanirnar sem Pressan ber á borð svaraði hann: „Ég kannast ekki við þessar ásakanir. Þetta er hið undarlegasta mál."

Ekki náðist í Gunnar sjálfan né eiginkonu hans, Jónínu við vinnslu fréttarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×