Innlent

Leiðsöguskóli sagður afvegaleiða nemana

Kristín Jónsdóttir Endurmenntunarstjóri Háskóla Íslands segir óheiðarlegt að villa um fyrir fólki sem hyggst stunda leiðsögunám.
Kristín Jónsdóttir Endurmenntunarstjóri Háskóla Íslands segir óheiðarlegt að villa um fyrir fólki sem hyggst stunda leiðsögunám. Fréttablaðið/Stefán
„Það er ranglega farið með á hvaða menntunarstigi þetta nám er,“ segir Kristín Jónsdóttir, endurmenntunarstjóri Háskóla Íslands. Hún gagnrýnir Menntaskólann í Kópavogi fyrir að kynna Leiðsöguskóla MK sem nám á háskólastigi.

„Til þess að nám teljist háskólanám þarf það að vera við, eða í samstarfi við, og á faglega ábyrgð viðurkenndrar háskólastofnunar. Menntaskólinn í Kópavogi hefur enga samninga um það við neinn. Þarna er því vísvitandi verið að villa um fyrir fólki,“ segir Kristín Jónsdóttir.

Umsjónarmaður Leiðsöguskóla MK er Kristín Hrönn Þráinsdóttir. Hún hafnar fullyrðingum um að námið í leiðsöguskólanum sé ekki á háskólastigi og að verið sé að villa um fyrir nemendum með því að kynna námið sem slíkt. Stúdentsprófs sé krafist, eins og gildi í hótelstjórnunarnám og Ferðamálaskóla MK. Um sé að ræða nám sem sé lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna og námskráin sé viðurkennd af menntamálaráðuneytinu.

„Árið 2004 var undirritaður samningur við Hólaskóla í ferðagreinum og það er samvinna við César Ritz Hotel Management. Á hverju ári útskrifast töluvert margir frá MK sem eru ekki í framhaldsskóla. Ef til vill er Menntaskólinn í Kópavogi rangheiti, kannski ætti skólinn að heita Menntastofnun Kópavogs,“ segir Kristín Hrönn.

Að sögn Kristínar Jónsdóttur er námskrá Leiðsöguskólans útgefin af menntamálaráðuneytinu fyrir framhaldskóla. Ráðuneytið hafi gert athugasemdir við að MK auglýsi námið á háskólastigi. Námið sé námslánshæft sem sérnám á framhaldsskólastigi.

Námið í Leiðsöguskóla MK er ekki metið inn í Háskóla Íslands. Leiðsögunám Endurmenntunar HÍ er hins vegar metið inn í hugvísindadeild skólans og í ferðamálafræði. Kristín Jónsdóttir segir námið í skólunum tveimur ekki sambærilegt. Leiðsögunám Endurmenntunar HÍ hófst árið 2008. „Okkar nám er mótað í samstarfi við bestu háskólakennara og öll vinnubrögðin eru á akademísku háskólastigi,“ segir hún.

Kristín Hrönn segir hins vegar að námið í MK sé hagnýtara fyrir þá sem ætli að starfa við leiðsögn. „Þetta hefur verið kennt hér í yfir fjörutíu ár og það er alltaf verið að fínstilla,“ segir umjónarmaður Leiðsöguskóla MK. - gar


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×