Innlent

Braut bjórglas á andliti stúlku

Ýmislegt misjafnt á sér stað í næturlífi Reykjavíkur.
Ýmislegt misjafnt á sér stað í næturlífi Reykjavíkur.

Ung stúlka var í dag dæmd í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að kasta bjórglasi í andlit á annarri stúlku á skemmtistaðnum Prikinu. Atvikið átti sér stað fyrir utan salerni skemmtistaðsins þar sem stúlkurnar rifust heiftarlega.

Í dómnum kemur fram að stúlkan sem var dæmd hafi verið inn á klósetti ásamt karlkyns vini sínum. Eitthvað hafi þau ílengst inni á klósetti þar sem þau hafi verið „í miðri sögu". Stúlkan, sem átti eftir að fá bjórglasið í sig hafi barið á dyrnar og drengurinn hafi opnað og útskýrt að ekkert óeðlilegt væri á gangi inn á klósettinu þar sem hann væri „maður homosexual".

Mikið rifrildi hafi því næst átt sér stað sem endaði á slagsmálum stúlknanna þar sem var bæði klórað og barið og á endanum hafi hin ákærða kastað bjórglasi í andlit stúlkunnar sem hafði barið á klósettdyrnar.

Stúlkan sem var dæmd í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag er fædd árið 1986. Hún hélt því fram við dómi að glasið hefði „óvart" lent í andliti hinnar stúlkunnar. Dómurinn tók ekki mark á þeim framburði og dæmdi hana í fimm mánaða fangelsi. Stúlkan sem fékk glasið í andlitið beið miska og fékk 250 þúsund krónur í skaðabætur.

Héraðsdómur taldi ástæðu til að fresta fullnustu refsingar stúlkunnar sem henti glasinu haldi hún skilorð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×