Innlent

Öryggismálum ábótavant við Silfru

SB skrifar
Jónína Ólafsdóttir landfræðingur gagnrýnir ástandið í sportköfun.
Jónína Ólafsdóttir landfræðingur gagnrýnir ástandið í sportköfun.

Ekkert upplýsingaskilti eða varasúrefni er við vinsælasta köfunarstað Íslands, Silfru, þar sem erlendur ferðamaður lést í gær. Eftirlit með fyrirtækjum sem bjóða upp á sportköfun er ábótavant og reglugerðir úreldar. Þetta kemur fram í lokaritgerð Jónínar Ólafsdóttur landfræðings sem segir ástandið í sportköfun hér á landi afar slæmt.

"Það sem helst má gagnrýna er að það er ekki eftirlit með neinu. Atvinnuköfunarskírteini eru gefin út af Siglingastofnun og allar reglugerðir og lög eru þýdd upp úr norsku og byggja á norskum reglugerðum um atvinnukafara sem vinna aðallega á olíuborpöllum," segir Jónína.

Í ritgerð sinni fjallar hún sérstaklega um Silfru sem er vinsælasti köfunarstaður Íslands.

"Þarna eru tugir manns sem kafa á hverjum degi en samt er ekkert varaloft á svæðinu. Þeir sem kafa á vegum köfunarfyrirtækja þurfa að framvísa þeim skírteinum, en ekkert eftirlit er með þeim sem eru á eigin vegum," segir Jónína og bendir á að Silfra sé afar djúp gjá með miklu hellakerfi.

"Ef það yrði bara sett upp upplýsingaskilti og varasúrefni við gjánna værum við strax í betri málum," segir Jónína sem tekur þó fram að nokkur ferðaþjónustufyrirtækin standi sig afar vel, þar á meðal fyrirtækið sem skipulagði ferð erlenda ferðamannsins í gær.

"En það eru mörg smærri fyrirtæki sem eru í algjöru bulli, með allt of fáa leiðbeinendur og hleypa of mörgum í gjánna í einu. Punkturinn er sá að ekkert eftirlit er með fyrirtækjunum og því þarf að breyta."

Ritgerð Jónínu má lesa í heild sinni hér en helstu punktar hennar eru þessir:

Öryggismálin sem snúa að köfun á Íslandi eru ekki í nógu góðu standi og lítið eftirlit er með kennslu í köfun.

Lög og reglugerðir um köfun á Íslandi henta illa hér á landi. Reglugerðin er þýdd upp úr norskri reglugerð sem snýst að miklu leiti um köfun við olíuborpalla.

Þegar kemur að atvinnuköfun, bæði kennslu og ferðamannaköfun er lítið eftirlit og öryggisstöðlum ekki vel fylgt eftir.

Siglingastofnun sér um útgáfu kafaraskírteina sem eiga sér enga hliðstæðu í heiminum og gilda hvergi annars staðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×