Innlent

Móðurbróðir kraftaverkabarnsins: Framtíð Daníels er björt

Breki Logason skrifar

Móðurbróðir drengsins sem lifði af hörmulegt bílslys í Tyrklandi á miðvikudag segir ekki væsa um drenginn og framtíð hans sé björt. Hann fékk drenginn afhentan í gærkvöldi en tyrkneskir fjölmiðlar hafa sýnt málinu mikinn áhuga, og meðal annars setið um hótel fjölskyldunnar.

Drengurinn sem heitir Daníel Ernir Jóhannsson er rúmlega sex mánaða gamall. Foreldrar hans létust bæði í bílslysi á miðvikudag, þegar þau lentu framan á sendibíl sem kom akandi úr gagnstæðri átt. Daníel var fyrst um sinn á sjúkrahúsi í bænum Mugla en ræðismaður Íslands og kona hans tóku við honum eftir það.

Í gærkvöldi komu síðan móðurbróðir drengsins, Gunnar Tryggvason, kona hans og föðurafi og amma til landsins og fengu hann afhentan.

Í samtali við fréttastofu segir Gunnar það hafa verið ánægjulega stund, og greinilegt á öllu að vel hafi verið hugsað um Daníel litla. Hann vildi sérstaklega koma á framfæri þökkum til Utanríkisráðuneytisins og ræðismannshjónanna sem hann sagði hafa hjálpað fjölskyldunni mikið.

Gunnar segir Daníel litla hafa vakið mikla athygli úti, en fjölmargir miðlar hafa fjallað um drenginn sem hefur verið nefndur kraftaverkabarnið. Í morgun svöruðu þau meðal annars spurningum fréttamanna sem voru mjög áhugasamir um framtíð drengsins.

Gunnar segir fjölmiðla hafa fylgt fjölskyldunni hvert fótmál og meðal annars setið um hótel þeirra.

Hann segir enga ákvörðun hafa verið tekna um framtíð Daníels litla. Hann eigi stórar fjölskyldur í báðar ættir, það muni ekki væsa um hann og framtíð hans sé björt.

Hann segir fjölskylduna vilja koma heim sem allra fyrst og verið sé að skoða ýmsa möguleika í því.

Gunnar á jafnvel von á því að fjölskyldan geti komið með kraftaverkabarnið heim, strax á sunnudag.


Tengdar fréttir

Tilfinningarík stund þegar kraftaverkabarnið var kvatt

Það var tilfinningarík stund á ríkisspítalanum í Mugla í Tyrklandi í gær þegar syni hjónanna Dagbjartar Þóru Tryggvadóttur og Jóhanns Árnasonar var komið í umsjá íslenska konsúlsins í Tyrklandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×