Innlent

Björninn unninn á Langjökli

Alls fóru tíu lítrar af matarlit, 900 lítrar af vatni og einn kílómetri af snæri í ísbjörninn, sem var um 4.000 fermetrar.
Alls fóru tíu lítrar af matarlit, 900 lítrar af vatni og einn kílómetri af snæri í ísbjörninn, sem var um 4.000 fermetrar. Mynd/Christopher Lund
Bjargey Ólafsdóttir myndlistarmaður teiknaði fjögur þúsund fermetra stóran ísbjörn á Langjökul á föstudag.

„Þetta gekk lygilega vel," segir Bjargey um ísbjörninn stóra á Langjökli. Verkið var hluti af alþjóðlega verkefninu 350 Earth, þar sem listamenn á sautján stöðum víðs vegar um heim bjuggu til gríðarstór listaverk sem teknar voru loftmyndir af. Tilefnið var loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna sem hófst í Mexíkó í gær.

Bjargey var mætt á Langjökul klukkan að ganga tíu á föstudagsmorgun ásamt níu manna föruneyti, sem aðstoðaði hana við að teikna myndina af birninum. Að auki voru þrír um borð í þyrlunni sem myndirnar voru teknar úr.

Bjargey Ólafsdóttir með uppdrátt af ísbirninum sem var teiknaður á jökulinn.Mynd/Halldór Kolbeins
„Lykillinn af því hvað þetta gekk vel var að valinn maður var í hverju rúmi, eins og í öllum farsælum verkefnum."

Bjargey segir mestan tíma hafa farið í undirbúninginn, að setja upp punktanet og strengja kílómetra af snæri á milli til að mála eftir.

„Við vorum í sjálfu sér fljót að mála björninn, það tók ekki nema um tvær klukkustundir." Hún segir það hafa verið magnaða upplifun að svífa upp með þyrlunni og berja björninn augum.

Sett var upp punktanet með stikum til að sýna hvar ætti að hella litnum.Mynd/Halldór Kolbeins
„Maður sá auðvitað ekkert þarna niðri annað en línur á milli staura. Það var því alveg dásamlegt að fljúga þarna upp og sjá hvað þetta heppnaðist frábærlega."

Bjargey fékk tíu manns til liðs við sig til að teikna björninn, auk þriggja í viðbót um borð í þyrlunni.Mynd/Halldór Kolbeins
Bjargey segir verkefnið hafa verið krefjandi og lærdómsríkt. „Bestu verkin eru þau sem maður lærir mest af og það sem gefur þessu starfi gildi. Þetta er hluti af því að lifa lífinu lifandi og halda manni alltaf á tánum."

Finna má myndir af hinum loftverkunum á heimasíðu verkefnisins, 350.org - þar á meðal verk Thom Yorke, söngvara Radiohead, sem sett var upp í Brighton á laugardag.

bergsteinn@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×