Innlent

Mæðgin fundin á Langjökli

Gissur Sigurðsson skrifar
Mikill fjöldi björgunarsveitarfólks tók þátt í leitinni.
Mikill fjöldi björgunarsveitarfólks tók þátt í leitinni.

Björgunarsveitarmenn fundu skoska ferðakonu og 12 ára son hennar, sem saknað hafði verið á Langjökli frá því klukkan hálf sex í gærkvöldi, að þau urðu viðskila við samferðafólk sitt, en hópurinn var á vélsleðum.

Þá þegar hófst leit við mjög erfið skilyrið, skafrenning, ofankomu, hvassviðri og allt að tíu stiga frost. Kallað var á þyrlu Landhelgisgæslunnar, en skilyrði til leitar úr lofti voru afleit og var auk þess sem farið að skyggja þegar hún kom á vettvang.

Björgunarsveitarmenn af höfuðborgarsvæðinu, Norður-, Vestur-, og Suðurlandi voru kallaðir út og fjöldi snjóbíla var sendur á vetvang. Það var svo á örðum tímanum sem mæðginin fundust fyrir algera tilviljun miðað við aðstæður, að sögn leitarmanna, þar sem búið var að fara um þessar slóðir áður.

Þau voru þá aðeins nokkra tugi metra út af fyrirhugaðri leið og héldu þar kyrru fyrir. Þau höfðu skýlt sér við sleðann auk þess sem móðirinn skýldi syninum.

Hún var því orðin mjög köld þegar þau fundust og voru flutt í björgunarsveitarbíl á Borgarspítalann í Fossvogi, þangað sem þau komu rétt fyrir klukkan sex í morgun.

Á leiðinni voru þau hlýjuð upp og var drengurinn fljótur að ná sér, en konan mun dvelja eitthvað áfram á sjúkrahúsinu á meðan hún er að jafna sig.

Yfir 300 björgunarsveitarmenn tóku þátt í leitinni og var fögnuður þeirra mikill þegar mæðginin fundust. Til stóð að efla leitina enn með morgninum og ætlaði Landehelgisgæslan líka að senda bæði flugvél og þyrlu, strax í birtingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×