Innlent

Taldi amfetamínvökva vera vín

Amfetamín Vökvinn sem maðurinn var með hefði nægt til að búa til átta kíló af amfetamíni.
Amfetamín Vökvinn sem maðurinn var með hefði nægt til að búa til átta kíló af amfetamíni.

Ríkissaksóknari hefur ákært pólskan karlmann á fertugsaldri fyrir að reyna að smygla til landsins einum lítra af amfetamínvökva.

Manninum er gefið að sök stórfellt fíkniefnalagabrot, þegar hann í lok ágúst á þessu ári stóð í ágóðaskyni að innflutningi á rúmlega einum lítra af vökva sem innihélt amfetamínbasa. Vökvann hafi hann ætlað til söludreifingar hér á landi.

Úr vökvanum sem maðurinn reyndi að smygla inn í landið var hægt að framleiða um átta kíló af amfetamíni til götusölu, samkvæmt matsgerð rannsóknarstofu Háskóla Íslands. Við broti af þessu tagi getur legið allt að tólf ára fangelsi.

Við þingfestingu málsins í gærmorgun neitaði maðurinn að hafa vitað hvaða efni hann hefði verið að flytja, en talið að um vín hefði verið að ræða. Þá var hann beðinn fyrir flöskuna af óþekktum manni í Póllandi, að eigin sögn, og átti að afhenda hana óþekktum manni hér á landi.

Umræddur maður hefur sætt gæsluvarðhaldi frá því að hann var handtekinn við komuna hingað til lands og mun verða áfram inni þar til dómur gengur í máli hans. - jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×