Innlent

RÚV kært fyrir að auglýsa áfengi

Árni Guðmundsson segir RÚV ekki treystandi til þess að vera á auglýsingamarkaði.
Árni Guðmundsson segir RÚV ekki treystandi til þess að vera á auglýsingamarkaði.

„Við erum búin að senda þrjár kærur," segir Árni Guðmundsson, formaður Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum, en samtökin hafa lagt fram þrjár kærur gegn RÚV vegna meintra brota á lögum um áfengisauglýsingar.

Ein kæran kom fram um verslunarmannahelgina fyrir um ári síðan. Hinar tvær eru vegna auglýsinga sem birtust í kringum heimsmeistaramótið í fótbolta.

Um er að ræða auglýsingu sem fótboltaspekingar HM-stofunnar ræddu og sýndu ísbjörn troða Vuvuzela-lúðri upp í sel. Árni segir að engan texta hafi verið að finna í auglýsingabrotinu og því varði auglýsingin við lög.

Það sama átti við um þriðju auglýsinguna, í henni var ekki að finna orðið léttöl og því hugsanlegt brot gagnvart áfengislöggjöfinni.

„Útvarpsstjórinn er sennilega ábyrgur í restina," segir Árni spurður hver sé ábyrgur fyrir brotinu, verði sá hinn sami ákærður. RÚV hefur ekki enn verið dæmt fyrir áfengisauglýsingar en nokkrir slíkir dómar hafa fallið yfir ritstjórum prentmiðla.

Árna segist misboðið af auglýsingamennsku RÚV sem víli ekki fyrir sér að sýna áfengisauglýsingarnar á meðan börn og unglingar horfa á vinsælasta íþróttamót veraldar.

„Mér finnst reyndar að RÚV eigi ekki að vera á auglýsingamarkaði. Þeim er ekki treystandi til þess. Til dæmis auglýstu þeir McDonalds-hamborgara í miðjum barnatímum þangað til það var bannað með lögum," segir Árni sem telur siðferði auglýsendadeildar RÚV fyrir neðan allar hellur.


Tengdar fréttir

Foreldrasamtök vilja að útvarpsstjóri sæti ábyrgð

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum vilja að útvarpsstjóri sæti ritstjórnarlegri ábyrgð vegna áfengisauglýsinga, sem birtar eru í Ríkissjónvarpinu í tengslum við heimsmeistaramótið í knattspyrnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×