Innlent

Konurnar ætla að dansa vegna nýja vegarins

Leiðin til Raufarhafnar frá Reykjavík styttist umtalsvert með tilkomu nýja vegarins.
Leiðin til Raufarhafnar frá Reykjavík styttist umtalsvert með tilkomu nýja vegarins.
Íbúar á norðausturhorni landsins efna til allsherjar héraðshátíðar á sex stöðum um helgina í tilefni þess að nýr vegur yfir Melrakkasléttu verður formlega opnaður, en með honum styttast leiðir til bæði Raufarhafnar og Þórshafnar, auk þess sem samfellt malbik verður komið þangað alla leið úr Reykjavík.

Ögmundur Jónasson samgönguráðherra mun ásamt Hreini Haraldssyni vegamálastjóra opna formlega Hófaskarðsleið og Raufarhafnarveg klukkan ellefu á laugardagsmorgun með því að klippa á borða við áningarstaðinn í Hófaskarði. Síðan verður öllum íbúum boðið til kaffisamsætis í Félagsheimilinu Hnitbjörgum á Raufarhöfn.

Fyrir íbúa norðausturhornsins markar opnun nýja vegarins það mikil tímamót í samgöngumálum að þeir ætla að efna til allsherjarhátíðar um helgina, allt frá föstudegi og fram á sunnudag, undir heitinu "Núna fer ég norður". Uppákomur af ýmsu tagi verða í byggðakjörnum og sveitabæjum, allt vestur frá Ásbyrgi og austur á Langanes, en mest þó á Kópaskeri, Raufarhöfn og Þórshöfn.

Af einstökum viðburðum má nefna að sérstök konukvöld verða á Þórshöfn og Raufarhöfn með dansiballi fram á rauða nótt, markaðsdagur verður í íþróttahúsinu á Þórshöfn á laugardag og knattspyrnumót ungmenna á sunnudag, á Ytra-Lóni á Langanesi fer fram smalahundakeppni, píanótónleikar verða í Þórshafnarkirkju og léttmessa í Raufarhafnarkirkju.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×