Innlent

Kafari lést á Þingvöllum

SB skrifar

Ungur karlmaður lést við köfun í Silfru á Þingvöllun í dag. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Árnessýslu var maðurinn erlendur ferðamaður. Þjóðgarðsvörður segir farið yfir öryggisatriði vegna slyssins.

Tilkynning um slysið barst lögreglunni klukkan 13:13 og tuttugu mínútum fyrir tvö tókst að koma manninum upp úr gjánni. Lífgunartilraunir fóru fram en þegar ljóst var að þær báru ekki árangur var maðurinn úrskurðaður látinn. Svo virðist sem bilun hafi orðið í köfunarbúnaði.

Ólafur Örn Haraldsson Þjóðgarðsvörður segir öllum frjálst að kafa í gjánni Silfru. "Hún liggur út frá afleggjaranum heim að Valhallarreitnum og þaðan út í Þingvallavatn. Þarna hafa þrjú eða fjögur köfunarfyrirtæki boðið upp á köfun og hefur það farið fram með fullu leyfi frá okkar hálfu en við erum ekki þeir aðilar sem eiga að fylgjast með búnaði eða öryggisreglum.

Ólafur kom sjálfur á vettvang í dag og segir þá tvo landverði hafa verið þar fyrir. "Svo dreif að björgunarlið og lögreglu og við veittum þeim alla þá aðstöðu sem við höfðum í boði."

Ólafur segir málið vera hörmulegt. "Það má alveg koma fram að við munum fara yfir þetta allt hjá okkur, skoða allar hliðar þessa máls svo svona komi ekki fyrir aftur."


























Fleiri fréttir

Sjá meira


×