Innlent

Forskot Fréttablaðsins eykst

Fréttablaðið heldur yfirburðastöðu sinni á íslenskum dagblaðamarkaði samkvæmt nýrri lestrarkönnun Capacent. Hvern dag má gera ráð fyrir að um tvöfalt fleiri lesi Fréttablaðið að meðaltali en Morgunblaðið.

Meðallestur á hvert tölublað Fréttablaðsins mælist nú 60,9 prósent. Það er örlítið minni lestur en mældist í síðustu könnun, en þá lásu 61,4 prósent Íslendinga blaðið.

Lestur Morgunblaðsins minnkar einnig milli kannana, lækkar úr 32,1 prósenti í 31,5 prósent. Athygli vekur að lestur Morgunblaðsins hefur aldrei mælst minni. Lestur annarra blaða er ekki kannaður af Capacent

Munurinn á lestri dagblaðanna er mestur í hópi lesenda á aldrinum 18 til 49 ára.

Meðallestur á hvert tölublað í þeim hópi mælist 60,4 prósent hjá Fréttablaðinu, en 23,4 prósent hjá Morgunblaðinu.

Könnun Capacent var gerð í síma og nær yfir tímabilið 4. ágúst til 31. október. Niðurstöðurnar eru byggðar á svörum 2.408 manns á aldrinum 12 til 80 ára.

- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×