Innlent

„Við getum orðið stórfyrirtæki“

Björn Lárus Örvar
Björn Lárus Örvar
„Við getum orðið stórfyrirtæki á íslenskan mælikvarða innan skamms tíma," segir Björn Lárus Örvar, framkvæmdastjóri ORF Líftækni. „Við erum að fara inn á lyfjaþróunarmarkaðinn. Þar erum við í viðræðum við indverska fjárfesta um að fara með okkur í stórt verkefni."

ORF Líftækni hefur tvöfaldað fjölda starfsfólks frá hruni. Erlendir fagfjárfestar hafa gefið fyrirtækinu innspýtingu með nokkur hundruð milljóna króna framlagi. Fyrirtækið stefnir á stórfellda akuryrkju þar sem erfðabreytt bygg yrði ræktað til framleiðslu á líftæknivörum. Það eina sem stendur í veginum er úrskurður umhverfis-ráðherra um útiræktunarleyfi, sem Umhverfisstofnun veitti fyrirtækinu.

Fyrirtækið framleiðir sérvirk prótein sem fyrirfinnast í mannslíkamanum. Til þessa er fræ byggplöntunnar nýtt sem verksmiðja. Próteinin nýtast til læknisrannsókna, lyfja- og snyrtivöruframleiðslu. Af þeim 130 próteinum sem fyrirtækið framleiðir eru 38 seld til útlanda. Eitt þeirra er selt hér á landi í húðdropum frá Sif Cosmetics, dótturfyrirtæki ORF.

Heimsmarkaðurinn með próteinin, ef lyf eru undanskilin, er um einn milljarður Bandaríkjadala á ári, eða um 125 milljarðar króna. Markaðurinn fyrir eitt þeirra próteinlyfja sem þegar er komið á markað er hins vegar 625 milljarðar íslenskra króna á ári.

Framleiðsla ORF tengist nýrri læknisfræði, svokallaðri vefjasmíði, þar sem próteinin eru nýtt við líffærasmíði. Þegar hefur verið búin til þvagblaðra. Einnig hjartalokur og vélinda. „Þessu má líkja við að hægt sé að smíða varahluti í menn," segir Björn.

- sháAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.